KLASSÍK Á EYRINNI
Klassík á eyrinni er einstök kammertónlistarhatíð sem fer fram í fyrsta sinn sumarið 2024 í hrífandi fegurð Eyjafjarðarins. Hátíðin fer fram yfir helgina 17. -18. ágúst og býður íbúum Norðurlandsins að hlýða á fremstu ungu tónlistarmenn landsins flytja meistaraverk kammerbókmenntanna í kirkjum og tónleikasölum um alla Akureyri. Listrænir stjórnendur hátiðarinnar eru Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir sellóleikari. Hátíðin 2024 fer fram í Hofi á Akureyri, Glerárkirkju og í Hrísey og flutt verða verk eftir góðkunna kappa eins og J.S. Bach, Ludwig van Beethoven og Robert Schumann en einnig hljóma stutt og hressileg verk af nýrri toga eftir dáð tónskáld eins og Caroline Shaw og Philippe Hersant.
Kynntu þér dagskrá fyrstu hátíðarinnar hér!
LISTRÆNIR STJÓRNENDUR
Geirþrúður Anna
Guðmundsdóttir
sellóleikari
Sólveig
Steinþórsdóttir
fiðluleikari
Sólveig Steinþórsdóttir og Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir hafa leikið saman síðan þær voru nemendur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þær útskrifuðust sama árið frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hafa síðan ferðast víða fyrir nám og listir en hafa alltaf komið heim og spilað saman reglulega á Íslandi. Þær hafa báðar mikið dálæti á kammertónlist og ákváðu því að láta til skarar skríða og stofna saman tónlistarhátíð til þess að skapa ungum tónlistarmönnum Íslands fleiri tækifæri til þess að koma fram saman og til þess að eiga góða afsökun fyrir því að heimsækja uppáhaldsstað sinn á Norðurlandinu! Auk þess að stjórna Klassík á eyrinni halda þær fjölmarga dúótónleika á Íslandi þetta sumar og hyggjast taka upp sína fyrstu plötu haustið 2024. Þær eru að sjálfsögðu meðal flytjenda Klassíkar á eyrinni og má lesa meira um þær á flytjendasíðunni.